Fara í efni

Starfsmennt er að bjóða uppá námskeið fyrir félagsmenn sem starfa með fötluðu fólki, öldruðum og sjúkum, - starfsnám hefst í janúar!

Starfsnám stuðningsfulltrúa[1] er starfstengt grunnnám fyrir þá sem vilja vinna með fötluðu fólki, 

öldruðum eða sjúkum og byggja um leið upp starfsferil á félags- og heilbrigðissviði.

Um er að ræða 162 stunda grunnnám og 84 stunda framhaldsnám sem kennt hefur verið um árabil og nýlega verið uppfært.
Þar sem málefni fatlaðra hafa verið færð frá ríki til sveitarfélaga hafa viðsemjendur ákveðið að kynna það sérstaklega fyrir starfsmönnum sveitarfélaga sem tækifæri til að efla sig í starfi. Um er að ræða heildstætt starfsnám þar sem fjallað er um starfsvettvanginn og nýjungar í starfi þeirra sem vinna t.d. á heimilum, sambýlum og innan íbúðakjarna eða sérsniðinna þjónustuúrræða.
Skráning er hafin í námið en umsóknarfrestur er til 5. janúar 2015.

[1] Önnur starfsheiti yfir stuðningsfulltrúa hjá sveitarfélögum eru t.d. starfsmaður á hæfingarstöð, starfsmaður á sambýli fyrir fatlaða I-IV
eða starfsmaður á vinnustofu.

-----------------------------------------------------------

Viltu verða að liði og læra um leið?
Starfsnám stuðningsfulltrúa er starfstengt grunnnám fyrir þá sem vilja vinna með fötluðu fólki, öldruðum eða sjúkum og byggja um leið upp starfsferil á félags- og heilbrigðissviði. Um er að ræða 162 stunda grunnnám og 84 stunda framhaldsnám sem kennt hefur verið um árabil og nýlega verið uppfært. Þar sem málefni fatlaðra hafa verið færð frá ríki til sveitarfélaga hafa viðsemjendur ákveðið að kynna það sérstaklega fyrir starfsmönnum sveitarfélaga sem tækifæri til að efla sig í starfi. Um er að ræða heildstætt starfsnám þar sem fjallað er um starfsvettvanginn og nýjungar í starfi þeirra sem vinna t.d. á heimilum, sambýlum og innan íbúðakjarna eða sérsniðinna þjónustuúrræða. Námið nýtist bæði þeim sem eru að hefja störf eða vilja kanna vettvanginn og þekkja til helstu verkþátta. Það nýtist einnig starfsfólki með langa starfsreynslu sem vill mennta sig enn frekar á þessu sviði og þróast áfram í starfi. Umfram allt hentar námið fólki sem hefur áhuga á að vinna með öðrum með því að aðstoða, sýna skilning, hjálpa eða veita ráð. Það starfsfólk sem velur að starfa á þessum vettvangi er líklegt til að hafa áhuga á réttlætismálum, vera greiðvikið, félagslynt og þolinmótt. Það er því til margs að vinna að fá öflugt og áhugasamt starfsfólk til þessara starfa og veita því viðeigandi tækifæri til úrvals starfstengdrar menntunar.
Fagmennska og frekara nám
Markmið Starfsnáms stuðningsfulltrúa er að auka færni og þekkingu þátttakenda á aðstæðum og þörfum notenda þjónustunnar til að efla lífsgæði þeirra og virkni. Fjallað er um fjölbreytt viðfangsefni á sviði sálar-, uppeldis- og félagsfræða ásamt verklegri þjálfun. Námsmaður kynnist grundvallarhugmyndum þjónustunnar, skipulagi, framkvæmd og þróun fagþekkingar og lærir á helstu tæki. Náminu er ætlað að stuðla að jákvæðu viðhorfi til símenntunar og að auðvelda starfsfólki að takast á við ný verkefni. Námið er vel þekkt innan félags- og heilbrigðisgeirans sem góður grunnur að t.d. félagsliðanámi, félagsliðabrú og inn á ýmsar starfsnámsbrautir á heilbrigðissviði. Námið er oftast stundað samhliða starfi en færst hefur í vöxt að það sé nýtt til svokallaðrar umskólunar þar sem starfsmaður skiptir um starfsvettvang og menntar sig til nýrra starfa á félags- og heilbrigðissviði.
Framkvæmd og fyrirkomulag
Fræðslusetrið Starfsmennt hefur þróað námið frá upphafi og haft veg og vanda að framkvæmd þess í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar um allt land. Námið byggir nú á námskrá, sem nýlega hefur verið endurskoðuð og vottuð þannig að meiri tengsl eru nú en áður við formlega skólakerfið. Unnið er að því á vettvangi stjórnvalda að meta starfstengdar námsleiðir til framhaldsskólaeininga og greiða þannig leið að margskonar starfsnámi. Kostnaður þátttakenda hefur alltaf verið óverulegur eða jafnvel enginn, þar sem flest stéttarfélög og fræðslusjóðir aðila á vinnumarkaði hafa stutt við sitt fólk en námið er nú niðurgreitt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslu. Í bókun með síðustu kjarasamningum kemur fram að sveitarfélögin muni styðja við þátttöku í náminu með því að skipuleggja og liðka fyrir. „Starfsmaður sem sækir námskeiðin skv. heimild skal halda reglubundnum launum á meðan ef námskeiðstími rekst á við skipulagða vakt... “ Þar sem námið er umfangsmikið liggur skipulag þess alltaf fyrir með góðum fyrirvara og því hægt að gera langtímaplön. Brýnt er að allir leggist á eitt að viðhalda þekkingu og vaxandi fagmennsku á þessum mikilvæga vettvangi með því að bjóða upp á heildstætt, viðurkennt og aðgengilegt starfsnám og efla um leið gæðastarf og starfsánægju.

Hulda Anna Arnljótsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslusetursins Starfsmenntar