Lög félagsins

Lög starfsmannafélags Garðabæjar, STAG

 

Nafn og tilgangur

1. gr.

Félagið heitir Starfsmannafélag Garðabæjar, skammstafað STAG. Heimili þess og varnarþing er í Garðabæ.

 

2. gr.

Félagið er stéttarfélag starfsmanna Garðabæjar svo og fyrirtækja í eigu bæjarins.

Tilgangur og hlutverk félagsins er meðal annars eftirfarandi:

  1. Að annast kjarasamningsgerð og vera í fyrirsvari fyrir hönd starfsmanna varðandi kjarasamninga samkvæmt lögum og reglugerðum er þá varða.
  2. Að gæta hagsmuna félagsmanna í því er varðar laun, önnur kjör, starfsréttindi hvers konar, eftirlaun og önnur réttindi og skyldur því varðandi.
  3. Að stuðla að aukinni menntun m.a. með styrkjum úr menntasjóði.
  4. Að starfrækja orlofshús og annað það sem bæta kann kjör félagsmanna í orlofi.
  5. Að tryggja að félagsmenn eigi rétt á styrkjum verði þeir fyrir verulegum áföllum svo sem vegna veikinda, slysa eða dauðsfalla.
  6. Að stuðla að auknu samstarfi opinberra starfsmanna og samvinnu launþegasamtaka

 

Réttindi og skyldur

3. gr.

Rétt til inngöngu í félagið eiga þeir sem eru ráðnir til starfa hjá bæjarfélaginu eða stofnunum þess og gerður hefur verið skriflegur ráðningarsamningur við sem kveður á um félagsaðildina.

Ákvörðun um félagsaðild er hægt að vísa til stjórnar.

Til þess að standa straum af kostnaði við starfsemi félagsins greiða félagsmenn félagsgjald samkvæmt ákvörðun aðalfundar. Í félagsgjaldi er innifalið árgjald til BSRB samkvæmt ákvörðun bandalagsins.

4. gr.

Hver sá félagi sem segir upp starfi og gengur úr ráðningarsambandi við bæjarfélagið eða stofnanir þess missir öll félagsréttindi frá sama tíma.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg tilkynning til stjórnar og öðlast hún gildi frá þeim tíma er hún berst félagsstjórn enda sé félagsmaður þá skuldlaus við félagið. Úrsögn öðlast þó ekki gildi eftir að ákvörðun um verkfall hefur verið tekin og meðan á verkfalli stendur, heldur frestast gildistaka hennar þar til verkfalli lýkur.

Verði félagsmaður atvinnulaus skal hann eiga kost á að halda félagsaðild og þeim réttindum, sem er á færi félagsins að veita, á fyrstu sex mánuðunum sem hann er atvinnulaus og sannanlega ekki með aðild að öðru stéttarfélagi. Atvinnulausir greiða félagsgjald, en heimilt er að fella það niður.

Eftirlaunaþegar geta verið áfram í félaginu sem gjaldfrjálsir aukafélagar næstu tvö ár eftir að þeir láta af störfum enda hafi starf þeirra verið aðalstarf að minnsta kosti fjögur ár fyrir starfslok. Þeim skal gefinn kostur að fjalla um sérmál er varða rétt þeirra og hagsmuni en aðra aðild eiga þeir ekki að félaginu.

Félagsmenn geta óskað þess að stjórn félagsins hafi afskipti af ráðningarkjörum, starfskjörum, eftirlaunum, brottvikningu og öðru því sem skiptir máli í samræmi við tilgang félagsins.

 

Aðalfundur

5. gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en 15. maí ár hvert og skal stjórnin boða til hans með áberandi auglýsingu á hverjum vinnustað, á heimasíðu félagsins og með rafrænum fjölpósti til félagsmanna með fjórtán (14) daga fyrirvara hið skemmsta. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Hafi stjórn borist breytingartillögur um lög félagsins skulu þær kynntar í aðalfundarauglýsingu.

Takist ekki að ljúka aðalfundarstörfum á einum fundi skal boða til framhaldsaðalfundar með sama hætti.

 

6. gr.

Dagskrá aðalfundar félagsins skal vera eftirfarandi:

  1. Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins fyrir liðið ár.
  2. Lagðir fram til samþykktar endurskoðaðir reikningar félagsins og sjóða félagsins fyrir liðið ár og gerð grein fyrir þeim.
  3. Tillögur til lagabreytinga enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins eigi síðar en fjórtán (14) dögum fyrir aðalfund.
  4. Kosning stjórnar samkvæmt 7. gr.
  5. Kosning skoðunarmanna ársreiknings skv. 12. gr.
  6. Kosning fulltrúa í nefndir STAG.
  7. Ákvörðun félagsgjalds.
  8. Ákvörðun um þóknun stjórnarmanna.
  9. Önnur mál.

Afl atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi nema annars sé getið í lögum þessum sbr. 7. gr., 17. gr. og 18. gr.

Fundi skal stjórnað eftir venjulegum fundarsköpum.

 

Stjórnarkjör

7. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum auk tveggja til vara. Stjórnarmenn skulu kosnir á aðalfundi. Formann skal kjósa sérstaklega til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur skulu kosnir tveir í einu til tveggja ára og gangi árlega tveir úr stjórninni á víxl.

Um kosningu til formanns gildir sú regla að hljóti enginn meira en helming gildra atkvæða skal á ný efnt til atkvæðagreiðslu milli þeirra tveggja er flest atkvæði hlutu eða þeirra sem efstir og jafnir urðu séu þeir fleiri en tveir. Telst sá kjörinn sem flest atkvæði hlýtur.

Rétt kjörnir meðstjórnendur eru þeir, sem flest atkvæði hljóta. Kjörnefnd úrskurðar um vafaatkvæði. Verði atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða.

Kosning skal vera leynileg ef fleiri eru í kjöri en kjósa skal.

 

Kjörnefnd og kosningar

8. gr.

Stjórn STAG skipar í janúar þriggja manna kjörnefnd og einn til vara til þess að sjá um stjórnarkjör. Kjörnefnd skal auglýsa eftir framboðum til stjórnarkjörs tímanlega fyrir aðalfund. Í auglýsingunni skal jafnframt vekja athygli á kosningu fulltrúa í nefndir félagsins og skoðunarmanna ársreiknings.

Kjörnefnd skal auglýsa með áberandi hætti á hverjum vinnustað, á heimasíðu félagsins og með rafrænum fjölpósti til félagsmanna.

 

Framboðum til stjórnarkjörs skal skilað til kjörnefndar eigi síðar en 10 dögum fyrir auglýstan aðalfund. Hverju framboði fylgi meðmæli ekki færri en 10 og ekki fleiri en 15 félagsmanna og samþykki frambjóðanda. Viku fyrir aðalfund skal kjörnefnd auglýsa, hverjir eru í framboði og hvar og hvenær aðalfundur fari fram.

Kjörnefnd sér um gerð atkvæðaseðla og skal formannsefnum raðað sér og meðstjórnendum sér, í stafrófsröð. Frambjóðendur í formannskjöri geta einnig verið kjörgengir í kjöri til meðstjórnenda.

Félagsstjórnin skal láta kjörnefndinni tímanlega í té skrá um þá, er kosningarétt hafa.

 

Stjórn og störf stjórnar

9. gr.

Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs varaformann, ritara og gjaldkera.

Formaður stjórnar kemur fram fyrir hönd stjórnar, hann kallar saman stjórnarfundi og stjórnar þeim, og boðar til félagsfunda, sbr. 11. gr. Gangi formaður úr stjórn á kjörtímabilinu þá tekur varaformaður við fram að næsta kjöri. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans.

Ritari skal halda fundargerðir fyrir alla fundi stjórnar og félagsfundi.

Gjaldkeri varðveitir alla fjármuni félagsins og sjóða þess, nema annað sé ákveðið í reglum þeirra. Allt handbært fé skal geymt í banka eða á annan tryggan hátt sem stjórn ákveður. Gjaldkeri greiðir alla reikninga og leggur fram endurskoðaða ársreikninga á aðalfundi. Gjaldkera er heimilt að fela starfsmanni félagsins innheimtu gjalda og greiðslu reikninga.

Stjórn skal setja sér starfsreglur sem aðgengilegar eru félagsmönnum.

 

Félagsfundir

10. gr.

Stjórn félagsins skal boða til félagsfundar svo oft sem þurfa þykir. Tuttugu og fimm (25) félagsmenn eða fleiri geta krafist þess skriflega að fundur verði haldinn í félaginu og skulu þeir tilgreina fundarefni. Er stjórn þá skylt að kalla saman fund innan sjö (7) daga.

 

11. gr.

Félagsfundi skal boða með minnst sjö (7) daga fyrirvara með áberandi auglýsingu á hverjum vinnustað, á heimasíðu félagsins og með rafrænum fjölpósti til félagsmanna. Tilgreina skal fundarefni í fundarboði. Félagsfundir eru lögmætir ef þeir hafa verið boðaðir samkvæmt fyrirmælum þessarar greinar.

Fundum félagsins skal stjórnað eftir venjulegum fundarsköpum. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála.

 

Reikningar

12. gr.

Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið. Á aðalfundi skulu kosnir tveir skoðunarmenn ársreikninga og einn til vara til tveggja ára í senn.

Bókhald skal vera fært samkvæmt gildandi bókhaldslögum á hverjum tíma og góðri reikningsskilavenju.

Fela skal óháðum endurskoðanda könnun á reikningum félagsins.

Ársreikningur félagsins skal vera félagsmönnum aðgengilegur að minnsta kosti sjö (7) dögum fyrir aðalfund.

 

Nefndir STAG

13. gr.

Félagið starfrækir menntasjóðsnefnd. Í henni sitja tveir aðalmenn og tveir varamenn sem aðild eiga að sjóðnum og skulu þeir kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Annar aðalmaðurinn skal tilnefndur af stjórn félagsins.

Æskilegt er að báðir aðalmenn gangi ekki úr nefndinni á sama tíma.

Menntasjóðsnefnd skal setja sér starfsreglur sem aðgengilegar eru félagsmönnum.

 

14. gr.

Félagið starfrækir orlofsnefnd. Í henni sitja þrír aðalmenn og tveir varamenn og skulu þeir kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Einn af aðalmönnum skal tilnefndur af stjórn félagsins.

Æskilegt er að allir aðalmenn gangi ekki úr nefndinni á sama tíma.

Orlofsnefnd skal setja sér starfsreglur sem aðgengilegar eru félagsmönnum.

 

15. gr.

Félagið starfrækir vísindasjóðsnefnd. Í henni sitja fjórir aðalmenn, tveir fulltrúar Garðabæjar og tveir fulltrúar STAG ásamt tveim varamönnum og skulu þeir eiga aðild að sjóðnum. Skulu fulltrúar STAG kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Annar fulltrúi STAG skal tilnefndur af stjórn félagsins.

Æskilegt er að allir aðalmenn gangi ekki úr nefndinni á sama tíma.

Vísindasjóðsnefnd skal setja sér starfsreglur sem aðgengilegar eru félagsmönnum.

 

Trúnaðarmenn

16. gr.

Á hverjum vinnustað þar sem starfa fimm (5) eða fleiri félagsmenn skal í septembermánuði annað hvert ár fara fram val trúnaðarmanns. Valið skal síðan tilkynnt félagsstjórn.

Berist eigi tilkynning fyrir 10. október skal félagsstjórn skipa trúnaðarmann án tilnefningar og tilkynna það félögum á viðkomandi vinnustað.

Félagsstjórn setur trúnaðarmönnum starfsreglur.

Trúnaðarmenn þessir mynda ásamt stjórn trúnaðarráð félagsins. Hlutverk trúnaðarráðs er að afgreiða á fundum sínum smærri mál og ræða og undirbúa stærri mál fyrir félagsfundi. Trúnaðarmenn skulu vera félagsstjórn til aðstoðar og styrktar í starfi hennar á hverjum tíma svo og við samningagerð. Trúnaðarráð skal boðað til samráðsfundar tvisvar á ári, vor og haust.

 

Lagabreytingar

17. gr.

Lögum þessum verður eingöngu breytt á aðalfundi. Skal breytingartillögum skilað til stjórnar félagsins eigi síðar en fjórtán (14) dögum fyrir aðalfund. Breytingartillögur skulu kynntar með aðalfundarboði. Breytingartillaga telst samþykkt hljóti hún samþykki 2/3 hluta fundarmanna.

 

Félagsslit

18. gr.

Félagið verður ekki lagt niður eða sameinað öðru félagi nema að undangengnu samþykki félagsmanna.

Ákvörðun um félagsslit skal tekin af aðalfundi og þarf tillagan þar um samþykki 2/3 hluta fundarmanna. Tillögunnar skal getið í fundarboði.

Hætti félagið að starfa af öðrum ástæðum en sbr. 2. mgr., skal innan tveggja ára frá síðasta aðalfundi boðað til almenns félagsfundar, þar sem tekin verða ákvörðun um endurreisn félagsins eða slit.

Verði samþykkt að slíta félaginu skal kosin þriggja manna skilanefnd til að ráðstafa eignum félagsins í samræmi við óskir aðalfundar, sbr. 2. mgr. eða félagsfundar, sbr. 3. mgr.

 

19. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eldri lög STAG.

 

Samþykkt á framhaldsaðalfundi þann 23. október 2025