Fara í efni

Hlutverk trúnaðarmanna

Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélags á vinnustað

Trúnaðarmaður er tengiliður milli félagsmanna á vinnustað og vinnuveitanda annars vegar og milli félagsmanns og stéttarfélags hins vegar. Trúnaðarmaður stendur ekki einn og er stjórn og starfsmenn stéttarfélags honum til aðstoðar við að leysa úr þeim erindum sem upp kunna að koma og heyra undir starfssvið stéttarfélagsins.  Mjög misjafnt getur verið eftir stéttarfélögum hvaða skyldum og hlutverkum trúnaðarmönnum er ætlað að gegna.

Helstu hlutverk trúnaðarmanns geta verið þessi:

  • Hafa eftirlit með því að atvinnurekandi fari eftir ákvæðum kjarasamnings, laga og reglugerða um starfskjör og réttindi starfsmanna og grípa til nauðsynlegra aðgerða ef þörf er á.
  • Meta hvaða ákvæðum kjarasamninga og reglna er æskilegt að breyta til að bæta kjör eða draga úr vanda við framkvæmd og gera stéttarfélaginu grein fyrir því, m.a. þegar staðið er að undirbúningi fyrir kröfugerð vegna kjarasamninga.
  • Taka við umkvörtunum starfsmanna og vera talsmaður þeirra gagnvart atvinnurekanda.
  • Vera fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustað, sjá um að koma boðum frá félagsmönnum til félagsins og frá félaginu til félagsmanna. Kynna félagsmönnum stefnu stéttarfélagsins og verkefni hverju sinni.
  • Taka á móti nýjum starfsmönnum, kynna þeim starfskjör og réttindi og kynna þeim stéttarfélagið og starfsemi þess.