Fara í efni

Réttindi og vernd trúnaðarmanna

Verndin nær fyrst og fremst til þeirra starfa sem tengjast  trúnaðarmannsstarfinu

Trúnaðarmenn hjá sveitarfélögum 

  • Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til trúnaðarstarfa.
  • Ekki má flytja  trúnaðarmann í lægri launflokk, meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.
  • Trúnaðarmaður situr að öðru jöfnu fyrir um að halda vinnunni ef hann er ráðinn með ótímabundinni ráðningu.
  • Trúnaðarmaður hefur rétt til þess að rækja skyldur sínar á vinnutíma.
  • Trúnaðarmaður á rétt á því að hafa aðstöðu á vinnustað til að rækja skyldur og hlutverk sitt.
  • Trúnaðarmaður á rétt á upplýsingum ef staða losnar á vinnustað hans.

Þessu til viðbótar er trúnaðarmönnum hjá ríkisstofnunum, Reykjavíkurborg og ýmsum sjálfseignastofnunum samkvæmt  samkomulagi milli Launanefndar sveitarfélaga og viðræðunefndar bæjarstarfsmanna 31.maí 1991  heimilt að sækja þing, fundi, ráðstefnur og námskeið á vegum stéttarfélagsins í allt að eina viku á ári án skerðingar á reglubundnum launum.  Þeir sem kjörnir eru í samninganefnd fá leyfi til að sinna  því verkefni án skerðingar á reglubundnum launum.  Trúnaðarmanni ber að tilkynna yfirmanni um slíkar fjarvistir með eðlilegum fyrirvara.  

Nánar um vernd trúnaðarmanna 

Vernd trúnaðarmanna gegn uppsögn af hálfu atvinnurekanda er hornsteinn þeirra  reglna sem gilda um trúnaðarmenn. Verndin er til að tryggja það að trúnaðarmaður  geti sinnt skyldum sínum án þess að eiga á hættu að vera sagt upp störfum vegna  þeirra. 

Verndin nær fyrst og fremst til þeirra starfa sem tengjast  trúnaðarmannsstarfinu en ekki daglegra starfa hans. Brjóti trúnaðarmaður alvarlega af sér í starfi má væntanlega víkja honum úr starfi og það er ekki tilgangur laganna að halda hlífiskildi yfir starfsmönnum vegna  alvarlegra brota í starfi. Það er ljóst samkvæmt þessu að vernd trúnaðarmanns í starfi er ekki alger og að  trúnaðarmaður getur þurft að hlíta uppsögn fyrir misfellur í starfi eða brot á þeim  starfsreglum á vinnustað, sem starfsmönnum er almennt skylt að hlíta. Félagsdómur hefur fjallað um  vernd trúnaðarmanns í starfi í dómum sínum og  þannig hafa mótast ákveðnar reglur um vernd trúnaðarmanna fyrir uppsögn.

  • Trúnaðarmenn sem starfa hjá opinberum aðilum njóta ákveðinna réttinda og verndar skv. 28.-30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
  • Trúnaðarmenn á almennum vinnumarkaði njóta réttinda og verndar samkvæmt 9.-13. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.