Fara í efni

Kjarasamningar 2020

Hér má finna Undirritaðan kjarasamning 2020.

Í tenglum hér til hliðar má sjá ýmislegt kynningarefni um kjarasamninga STAG við Samband Íslenskra sveitafélaga vorið 2020. 

Kynning á kjarasamningi 2020

Kjarasamningur STAG við samband íslenskra sveitafélaga er í meginatriðum sambærilegur við samning annarra bæjarstarfsmannafélaga hjá BSRB. Hér eru helstu punktar um það sem felst í samningnum. 

1. Kafli: Um kaup og kjör

1. ágúst 2019 var eingreiðsla upp á kr. 105.000 og verður önnur eingreiðsla vegna tímabils frá 1. ágúst til áramóta kr. 105.000 til útgreiðslu 1. apríl 2020.

Gildistími kjarasamninganna er frá 1. janúar 2020 til 31. mars 2023. 

Launhækkanir eru þannig að frá 1. janúar síðastliðnum hækka laun um  17.000 + 0,2% á launatöflu 

1. apríl 2020 hækka laun um kr. 24.000.
1. janúar 2021 hækka laun um kr. 24.000.  
1. janúar 2022 hækka laun um kr. 25.000.

Orlofsuppbót og desemberuppbót fá nýtt og sameiginlegt heiti; Persónuuppbót. Upphæð persónuuppbótar á samningstímanum er sem hér segir:

   1. desember 2019 115.450.-
   1. maí 2020 50.450.-
   1. desember 2020 118.750.-
   1. maí 2021 51.700.-
   1. desember 2021 121.700.-
   1.maí 2022 53.000.-
   1. desember 2022 124.750.-

 

Útborgun launa:

Beri fyrsta dag mánaðar upp á frídag skal útborgun launa vera síðasta virka dag þar á undan.

Yfirvinnukaup:

Upp verður tekin tvískipting yfirvinnu. Í núgildandi samning er yfirvinna 1,0385% af mánaðarlaunum.  

Tímakaup yfirvinnu 1 er 0,9385% af mánaðarlaunum en tímakaup yfirvinnu 2 er 1,0385% af mánaðarlaunum.

Greiðsla fyrir yfirvinnu skal vera með eftirtöldum hætti:

Yfirvinna 1:         Kl. 08.00 - 17.00 mánudaga – föstudaga.
Yfirvinna 2:         Kl. 17.00 - 08.00 mánudaga – föstudaga.
Yfirvinna 2:         Kl. 00.00 - 24.00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga.

Tímakaup yfirvinnu 2 greiðist jafnframt fyrir vinnu umfram 40 stundir á viku (173,33 stundir miðað við meðalmánuð).

2. Kafli: Um vinnutíma

Sameiginlegt málefni BSRB félaganna - kynningar frá BSRB. Dagvinna annarsvegar og vaktavinna hinsvegar.

Skil milli vinnu og einkalífs, nýtt inn í kjarasamning - sjá kynningu BSRB.

Helstu breytingarnar eru að vinnuvikan styttist úr 40 í allt að 36 virkar stundir og launamyndun vaktavinnufólks tekur mið af fleiri þáttum en áður. Í nýju launamyndunarkerfi fjölgar vaktaálagsflokkum og vægi vinnustunda er metið eftir áhrifum á heilsu og öryggi starfsfólks, sem getur leitt til aukinnar styttingar vinnutíma. Þá verður greiddur sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölbreytileika og fjölda vakta.

Samkomulag um tilhögun á styttingu dagvinnutíma þarf að liggja fyrir eigi síðar en um næstu áramót.

Innleiðing á styttingu vinnuviku vaktavinnufólks er flóknari í framkvæmd. 1. Febrúar 2021 skal liggja fyrir tillaga um innleiðingu frá stýrihóp. Stýrihóp skipa fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, ASÍ, BHM, BSRB og Fíh. Breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks taka gildi í heild sinni 1. Maí 2021.

Skil minni vinnu og einkalífs þurfa að vera skýr, mælst er til þess að stofnanir setji sér viðverustefnu til að skerpa á þessum skilum. Í þeim tilvikum sem starfsfólk þarf að sinna vinnu utan hefðbundins vinnutíma skal það koma fram í starfslýsingu og starfskjörum viðkomandi. Að öðrum kosti skal greiða sérstaklega fyrir vinnuframlag sem yfirmaður krefst af starfsmanni utan hefðbundins vinnutíma.

Vinnutími skal vera samfelldur sé þess kostur. Ef það eru eyður í daglegum vinnutíma skv ósk yfirmanns, þá skal greiða 1 klst í yfirvinnu fyrir slíkar eyður.

4. Kafli: Orlof

Sameignlegt málefni BSRB félaganna - kynning frá BSRB.

Lágmarksorlof skal vera 30 dagar (240 vinnuskyldustundir) og gildir fyrir alla
Þannig verður orlofsréttur sumarið 2020 í dögum talið:

Yngri en 30 ára = 26 dagar.
30 – 38 ára = 28 dagar.
eldri en 38 ára = 30 dagar.

Frá og með sumrinu 2021 munu allir fá 30 daga orlof.

Þeir starfsmenn sem samkvæmt skriflegri ósk vinnuveitenda fá ekki fullt orlof á sumarorlofstímabili, skulu fá 25% lengingu á þeim hluta orlofstímans sem veittur er utan framangreinds tíma.

Inn er kominn ítarlegri texti um að töku áunnins orlofs skuli alltaf lokið fyrir lok orlofsársins. Ef uppsafnað orlof frá árunum fyrir 2020, allt að 60 dagar, hefur ekki verið nýtt fyrir 30. apríl 2023 þá falla þeir dagar niður sem eftir standa.

5. Kafli: Ferðir og gisting

NÝ GREIN um ferðir með íbúa/þjónustuþega.

Ferðist starfsmenn með og annist íbúa á ferðalögum innanlands og til útlanda, sem búa á heimilum fyrir fatlað fólk og njóta sólarhringsþjónustu skal unnið samkvæmt vaktskrá og skal, áður en ferð er hafin liggja fyrir vinnuskipulag ferðarinnar. Starfsmönnum skal greitt með yfirvinnu utan þess tíma sem vaktskrá/vinnuskipulag nær til á meðan ferð stendur. Sama á við ef dvalið er yfir nótt.

Ekki er gert ráð fyrir að rof sé í vinnutíma nema sérstaklega sé um það samið enda starfsmenn stöðugt á vakt óháð fjölda starfsmanna.

Ef starfsmaður er á ferð með íbúa/þjónustuþega og annast hann einn skal greitt fyrir allan sólarhringinn á meðan á ferð stendur. Ef starfsmaður fer í ferðalag með íbúa/þjónustuþega að beiðni yfirmanns á frídegi sínum skal hann bættur með öðrum frídegi eða greiðslu yfirvinnu.

Þessi grein á ekki við um forstöðumenn stofnana sbr. gr. 1.5.3.

Við skipulag ferða með íbúa/þjónustuþega skal taka tillit til ákvæða um lágmarkshvíld sbr. grein 2.4.

Ekki er gert ráð fyrir að rof sé í vinnutíma nema sérstaklega sé um það samið enda starfsmenn stöðugt á vakt óháð fjölda starfsmanna.

8. Kafli: Verkfæri og fatnaður

Nýtt ákvæði fyrir starfsfólk íþróttahúsa og sundstaða: …einnig venjuleg sólgleraugu eða smellt sólgleraugu þar sem við á, sjá 8.2.2. liður a.

Starfsfólk félagsmiðstöðva á enn fremur rétt á vinnufatnaði sjá 8.2.2. liður c.

10. Kafli: Menntamál

Breytingar á nokkrum liðum og nýjar greinar til að skerpa á menntun og persónuálagi. Athuga ber að persónuálag vegna menntunar er ekki hægt að fá ef gerð er krafa um sambærilega menntun í starfið.

Menntun á framhaldsskólastigi

Þeir starfsmenn sem lokið hafa starfstengdu námi á framhaldskólastigi eða stúdentsprófi fá persónulag sem nemur 2% fyrir hverjar 100 fein. Skilyrt er að námið tengist starfi viðkomandi starfsmanns. (Stúdentspróf er á bilinu 200-240 fein og er á þriðja hæfniþrepi). 

Menntun á háskólastigi

Heimilt er að meta BA/BS próf þar sem ekki er gerð krafa um umrætt háskólapróf til starfsins í allt að 12% persónuálag.

Þar sem gerð er krafa um háskólamenntun í starfi er hægt að meta viðbótarmenntun allt að 16% persónuálag.

Launað námsleyfi

Nýtt ákvæði um að félagsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi samtals í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám. 

11. Kafli: Ýmis atriði

NÝTT!

Við ráðningu skal vinnuveitandi veita starfsmanni leiðbeiningar um að leggja fram öll nauðsynleg gögn sem hafa kjaralega þýðingu s.s. námsgögn og starfsaldursvottorð fyrir launasetningu starfsmanns og tryggja að þau berist til viðkomandi launadeildar.

Heimilt er vinnuveitanda að framlengja ráðningu eða endurráða starfsmann, sem hefur náð 70 ára aldri og látið hefur af föstu starfi samkvæmt gr. 11.1.7.1, í annað eða sama starf óski starfsmaður þess.

Breytingar er varða uppsagnarfrest af hálfu vinnuveitanda. Sé starfsmanni sagt upp eftir a.m.k. 10 ára samfellt starf hjá sama sveitarfélagi er uppsagnarfrestur 4 mánuðir ef starfsmaður er orðinn 55 ára, 5 mánuðir ef hann er orðinn 60 ára og 6 mánuðir ef hann er orðinn 63 ára. Starfsmaður getur hins vegar sagt upp starfi sínu með þriggja mánaða fyrirvara. 

12. Kafli: Réttur starfsmanna vegna veikinda og slysa

Vinnuveitandi endurgreiði starfsmanni þau útgjöld sem slysatryggingar almannatrygginga bæta ekki þegar um er að ræða slys á vinnustað. 

Sama gildir um þau útgjöld starfsmanns sem hann hefur orðið fyrir vegna atvika sem reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum gildir um og lög nr. 46/1980 ná til. Hér er um að ræða nýtt ákvæði.

VIÐBÓT VEGNA VEIKINDA BARNA

Nýta má að hluta eða að öllu leyti  rétt vegna veikinda barna undir 16 ára aldri í alvarlegum tilvikum sem leiða til sjúkrahúsvistar.

NÝTT! Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar, án frádráttar af föstum launum, þurfi slík skoðun að fara fram á vinnutíma.

13. Kafli: Launaseðill, félagsgjöld og iðgjaldagreiðslur

Orlofssjóður:

Framlag launagreiðanda í orlofssjóð STAG lækkar úr 1,8% í 1,7%

NÝTT! – FÉLAGSMANNASJÓÐUR

Stofnaður er sérstakur Félagsmannasjóður með það markmið að stíga skref til jöfnunar við aðra starfsmenn sveitarfélaga. Vinnuveitandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,24% af heildarlaunum félagsmanna og verður úthlutað úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum verður 1. febrúar 2021.

Til að fjármagna þennan félagsmannasjóð gefa BSRB félög eftir hluta iðgjalda í mannauðssjóð og orlofssjóð.

  • Greiðsla launagreiðanda í mannauðssjóð lækkar úr 0,3% af heildarlaunum í 0,2%.
  • Greiðsla launagreiðanda í orlofssjóð STAG lækkar úr 1,8% í 1,7% af heildarlaunum.

Jöfnun launa og launaþróunartrygging

Sameignlegt málefni BSRB félaganna:

Jöfnun launa á milli markaða og launaþróunartrygging - sjá kynningu BSRB.

Helstu bókanir með kjarasamningnum

Hér er minnst á helstu bókanir sem samið var um og hvað þær innihalda, sjá nánar bókanir í kjarasamningnum sjálfum.

BÓKUN 1 [2020]
Mismunandi meðferð vegna aldurs.

BÓKUN 2 [2020]
Endurskoðun 12. Kafla sem er um veikindarétt mun hefjast árið 2021. Markmið vinnunnar verður meðal annars að skilgreina betur hugtökin langtíma- og skammtímaveikindi og framkvæmd talningar veikindadaga samræmd.

BÓKUN 3 [2020]
Mötuneyti og mönnun m.t.t. umfangs starfseminnar. Stéttarfélag starfsmanna getur óskað eftir skoðun á mönnun.

BÓKUN 4 [2020]
Endurskoðun á tímavinnukerfum (Vinnustund), samstarfsverkefni allra aðila.

BÓKUN 5 [2020]
Trúnaðarmenn. Staðfesting á að vaktavinnufólk sem er trúnaðarmenn heldur sínu vaktaálagi þegar það sækir trúnaðarmannanámskeið.

BÓKUN 6 [2020]
Símenntun starfsfólks sundlauga um að forstöðumaður sundlaugar beri að skapa sundlaugarvörðum svigrúm til sundþjálfunar, verklegra æfinga vegna björgunar í laug og á æfingum vegna neyðaráætlunar.

BÓKUN 7 [2020]
Starfsmennt og mannauðssjóðir. Samband íslenskra sveitarfélaga stefnir á aðild að fræðslusetrinu Starfsmennt. (Liður í því að efla menntun félagsamanna stéttarfélaga bæjarstarfsmanna). Stefnt á aukið framboð starfstengdra námskeiða fyrir starfsmenn sveitafélaga.

Forsenda aðildar Sambands íslenskra sveitarfélaga að Starfsmennt er að samhliða verði mannauðsjóðir Samflots, Kjalar og KSG sameinaðir í einn mannauðssjóð bæjarstarfsmannafélaga.

BÓKUN 9 [2020]
Eldri sérákvæði einstakra stéttarfélaga í fyrri kjarasamningum halda áfram gildi sínu.