Fara í efni

Glæsilegt orlofshús risið í Arnarborg við Stykkishólm.

Þorgerður á pallinum fyrir aftan húsið
Þorgerður á pallinum fyrir aftan húsið

Laugardaginn 28. maí var nýtt orlofshús Starfsmannafélags Garðabæjar formlega afhent en það er staðsett í Arnarborginni, rétt utan við skógræktina og nálægt lóðum frístundabænda í Stykkishólmi. Góður hópur félagsmanna og starfsfólks sem vann að byggingu hússins fagnaði tilkomu þessa glæsilega bústaðar sem eflaust á eftir að njóta mikilla vinsælda.

Gróðursettar voru um 30 plöntur á lóðinni undir leiðsögn Erlu Biljar og mun verða gaman að fylgjast með þeim stækka og dafna næstu árin.

Húsið stendur á leigulóð sem er í eigu Stykkishólmsbæjar og er um 140 fermetrar að stærð, með stofu og eldhúsi samliggjandi og sjónvarpskróki, fjórum svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum.

Allt húsið er einstaklega vel og smekklega hannað bæði skipulag jafnt og innanstokksmunir. Húsið er hannað í samstarfi af verkfræðistofunni Ónyx og Skipavík. Sævar Harðarson framkvæmdarstjóri Skipavíkur stýrði framkvæmdinni allri með sínu fólki ásamt undirverktökum sem sáu um einstaka þætti. Hellulagt er í kringum húsið og til suðurs er um 85 fermetra sólpallur og að sjálfsögðu heitur pottur.

Vestan við húsið varð mikið jarðrask við byggingaframkvæmdirnar og þar hafa verið settar niður rólur og einnig hefur verið sléttað og tyrft þannig að þar er hægt að fara í fótbolta, útileiki eða tjalda. Í stærri moldarflögin hefur verið sáð grasfræi þannig að það ætti að gróa vel upp í sumar.

Orlofshúsið fór í útleigu til félagsmanna föstudaginn 3. júní og er búið að leigja það út ágúst. Opnað verður síðan fyrir haustleigu þann 1. júlí.

Stjórn og orlofsnefnd óskar félagsmönnum til hamingju með nýja orlofshúsið og vonar að það eigi eftir að verða félagsmönnum til gleði og ánægju að dveljast þar.

Í þessari krækju hér eru myndir til að skoða: