Fara í efni

STAG Spurt og svarað

Hvernig stendur á því að við fáum sömu eingreiðslu 105 þúsund og hin stéttafélögin en fáum samt einum mánuði styttra í samning? Þessi eingreiðsla kemur hún í staðinn fyrir launahækkun sem við hefðum fengið frá mars í fyrra samtals 210 þúsund? 

SVAR STAG: 2 eingreiðslur eru vegna 2019, báðar upp á 105.000, og þær eru uppbót fyrir launahækkanir sem hefðu átt að koma árið 2019. Samningur okkar er jafnlangur og hinna félagana.

Einnig þá vorum við samningslaus í meira en heilt ár, en ekki er samið frá árinu 2019, heldur aðeins frá 2020, hvernig stendur á því? 

SVAR STAG: Eingreiðslurnar eru uppbót í stað samnings fyrir árið 2019. Samningurinn okkar gildir frá 1. Janúar 2020 og er afturvirkur til þess tíma.

Hvað er í raun öðruvísi í þessum samningi STAG, sem er sér frá ykkur, sem er ekki hjá hinum starfsmannafélögunum?

SVAR STAG: Orlofssjóður STAG hefur í áratugi fengið hærri % heldur en aðrir sambærilegir sjóðir hjá öðrum bæjarstarfsmannafélögum. Það er aðalástæða þess að okkar samningur er alltaf tekinn sérstaklega.

Síðan fengum við inn svokallaðar TV einingar (Tímabundin viðbótarlaun) sem er nýlunda hjá bæjarstarfsmannafélögum. TV einingar eru leið sem yfirmenn geta til dæmis notað til að umbuna starfsmönnum sem þurfa að taka á sig tímabundið álag í vinnu t.d. vegna langtímaveikinda samstarfsmanna. Sjá nánar í kynningarefni.

"Þar sem gerð er krafa um háskólamenntun í starfi er hægt að meta viðbótarmenntun allt að 16% persónuálag."

Er þá möguleiki að sækja um hækkun á launum þrátt fyrir að hafa fengið hina venjubundu 4% hækkun þegar skilað var inn viðbótar diplómu ?

SVAR STAG: Þetta á við ef starfsmaður bætir við sig menntun á háskólastigi umfram það sem krafist er í starfi. Þetta á einungis við þegar ekki var gerð krafa um námið í starfslýsingu og við launaröðun. Sjá grein 10.2.7. í samningnum.

"Breytingar er varða uppsagnarfrest af hálfu vinnuveitanda. Sé starfsmanni sagt upp eftir a.m.k. 10 ára samfellt starf hjá sama sveitarfélagi er uppsagnarfrestur 4 mánuðir ef starfsmaður er orðinn 55 ára, 5 mánuðir ef hann er orðinn 60 ára og 6 mánuðir ef hann er orðinn 63 ára. Starfsmaður getur hins vegar sagt upp starfi sínu með þriggja mánaða fyrirvara."

Er þetta ekki brot á lögum þar sem nýlega tóku gildi sem banna mismunun á grundvelli aldurs?

SVAR STAG: þetta er kafli sem er inn í öllum samningum bæjarstarfsmannafélaga hjá BSRB og hann ku vera í takt við lögin.

Hvernig verður stytting vinnuviku hjá dagvinnufólki útfærð hjá Garðabæ?

Svar STAG: STAG og Garðabær munu funda hið fyrsta til að leggja línurnar í þeim málum. Ljóst er að styttingin þarf alltaf að taka mið af starfsemi stofnunar og með samtali starfsmanna. STAG mælir með að hver vinnustaður geri skriflegt samkomulag um útfærslu.

Það er farið vel yfir þetta í kynningarmyndbandi BSRB.  

Sé að ef starfsmenn vilja fulla styttingu vinnuvikunnar um 4 tíma. Þá eigum við samt rétt á matar og kaffitímum talað um að þeir séu sveigjanlegir hvað þýðir það? og hvaða langan tíma höfum við til að borða hádegismat og kaffipásur?

Svar STAG: Vísum til svars hér að ofan varðandi styttingu vinnuvikunnar.

Ef þessi samningur er samþykktur, fellur þá út Yfirvinna vegna manneklu og TV kemur í staðinn? Er TV borgað jafnvel og yfirvinna vegna manneklu?

Svar STAG: Nei, það breytist ekkert varðandi yfirvinnu og áður gerð samkomulög, slíkt er í raun ekki tengt kjarasamning. TV einingar eru viðbót sem forstöðumenn geta sótt um vegna TÍMABUNDINS álags á einstaka starfsmenn. Þær koma aldrei í stað yfirvinnu.

 Skil ég rétt að menntun á háskólastigi geti verið metin frá 12-16% í persónuálag? Hver ákveður hvort að svo sé?

Svar STAG: Menntun á háskólastigi telur inn til persónuálags þegar ekki er gerð krafa um viðkomandi menntun í starfi. Í störfum þar sem háskólamenntunar er krafist er tekið tillit til menntunar í í launasetningu.

Ákvörðun um mat til persónustiga liggur hjá kjaradeild og er tekin út frá þeim kröfum sem liggja fyrir í starfinu. Jafnframt þurfa gögn til staðfestingar á námi að liggja fyrir.

Í sambandi við núgildandi samning, ég sé eftirfarandi:

“ 10.2.2 Persónuálag vegna símenntunar.

Með vísan til greinar 10.1.3 skulu starfsmenn fá persónuálag vegna árlegrar þátttöku í símenntunaráætlun sem hér segir:

 2% eftir 1 árs starf hjá sveitarfélögum og/eða öðrum sambærilegum störfum.

 Samtals 4% eftir 5 ára starf hjá sveitarfélögum og/eða öðrum sambærilegum störfum.

 Samtals 6% eftir 9 ára starf hjá sveitarfélögum og/eða öðrum sambærilegum störfum.

 Samtals 8% eftir 15 ára starf hjá sveitarfélögum og/eða í öðrum sambærilegum störfum.

Stúdentspróf er jafngilt til mats í hvaða starfi sem er.”

Á ekki að vera persónuálag á laununum vegna stúdentsprófs/starfsaldurs hjá sveitarfélaginu?

Svar STAG: stúdentspróf er einungis metið inn til persónuálags þar sem menntunar er ekki krafist. Háskólamenntun er ekki metin til persónuálags nema ekki sé krafa um háskólamenntun í starfi.