Fara í efni

Fréttir frá BSRB

Þetta fengum við sent þann 05.07.2018

Dómurinn:

Í gær féll dómur Félagsdóms varðandi vinnuskyldu trúnaðarmanns sem vinnur í vaktavinnu í tengslum við trúnaðarmannanámskeið. Samkvæmt dómnum hafa okkar trúnaðarmenn sem eru í vaktavinnu lokið vinnuskyldu sinni sæki þeir trúnaðarmannanámskeið og atvinnurekendur geta ekki ætlast til að þeir taki kvöldvakt í beinu framhaldi. Málsatvik voru þau að trúnaðarmaðurinn sótti þriggja daga námskeið frá kl 9-16 en átti að vera á kvöldvöktum tvo daga af þessum þremur. Trúnaðarmaðurinn taldi sig hafa uppfyllt vinnuskyldu sína með þátttöku á námskeiðinu en atvinnurekandi hafnaði því, hélt því fram að honum hefði borið að mæta og neitaði að greiða laun vegna vaktanna. Stéttarfélagið, Eining-Iðja fór með málið fyrir Félagsdóm sem viðurkenndi kröfu þeirra um að réttur trúnaðarmannsins til launa yrði ekki skertur vegna setu á trúnaðarmannanámskeiði.

Dómurinn hefur ekki verið birtur ennþá svo þessi umfjöllun byggir á heimasíðu Starfsgreinasambandsins http://www.sgs.is/timamotadomur-i-felagsdomi/

Lagabreytingar vegna fjölgunar erlendra starfsmanna:

Nýlega var gerð breyting á lögum um útsenda starfsmenn. Það hefur lítil áhrif á okkar hagsmunagæslu en vildi þó senda ykkur nokkrar línur um helstu breytingar. Markmið lagabreytinganna er að veita íslenskum stjórnvöldum betri yfirsýn yfir stöðuna á innlendum vinnumarkaði varðandi starfsemi erlendra þjónustuveitenda hér á landi og fjölda/stöðu erlendra starfsmanna sem starfa hjá þeim fyrirtækjum hér á landi. Enn fremur að styrkja eftirlit með því að laun og önnur starfskjör séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga. BSRB átti sæti í starfshópi sem vann að lagafrumvarpinu svo frekari upplýsingar eru auðsóttar ef áhuginn er fyrir hendi.