Fara í efni

Félagið

Starfsmannafélag Garðabæjar

SAGA STARFSMANNAFÉLAGS GARÐABÆJAR

Starfsmannafélag Garðabæjar var stofnað 20. maí 1976 í kjölfar þess að bærinn fékk kaupstaðaréttindi. Á stofnfundinum voru tuttugu og tveir félagar og þar að auki Kristján Thorlacius, formaður BSRB. Hvatinn að stofnun félagsins var innganga að BSRB til að öðlast réttindi opinberra starfsmanna, ná fram kjarasamningi á við önnur starfsmannafélög bæjarfélaga og leggja áherslu á ýmis sérkjör. Fyrsta verk nýrrar stjórnar, sem í voru Jón M. Björgvinsson formaður, Gísli Valdimarsson ritari og Soffia Haraldsdóttir gjaldkeri, var því að sækja um aðild að BSRB.

Í fyrstu fundargerðum kemur fram að helsta umræðan hafi verið um launamál og leiðir til að ná sambærilegum samningum og starfsmenn annarra bæjarfélaga höfðu. Einnig bregður fyrir í fundargerðum ýmsum staðbundum kröfum s.s. að laun allra yrðu greidd mánaðarlega, greiddir yrðu fæðispeningar þar sem ekki var mötuneyti og ósk um að gerðar yrðu starfslýsingar fyrir alla starfsmenn. Ekki er að sjá að mikil átök hafi verið gegn viðsemjendum um launamál og því má ætla að samningamálin hafi yfirleitt gengið vel, en í byrjun var samið beint við Bæjarstjórn Garðabæjar um kaup og kjör. Með starfsmatskerfinu árið 1986 kom til skjalanna launanefnd á vegum sveitarfélaga sem fékk umboð til að semja fyrir hönd bæjarfélagsins gagnvart starfsmannafélaginu. Úr varð að bæjarstarfsmannafélögin ákváðu að standa saman og átti félagið aðild að Samfloti bæjarstarfs­mannafélaga í nokkrum samningahrinum. Síðustu ár hefur félagið samið beint við Launanefnd sveitarfélaga.

Ein af vörðum félagsins er öflugur orlofssjóður sem náðist inn í fyrsta kjarasamningi við Garðabæ um 1976 þar sem ákveðið var að greiða 1,8% af öllum launum félagsmanna í orlofssjóðinn. Má e.t.v. þakka sveitarstjórn Seltjarnarness þann góða árangur.

Sagan segir að þegar sveitarfélög á Reykjanesi tóku sig saman til að semja við starfsmannafélögin hafi ein krafan í samingnum verið stytting vinnuviku í fjörutíu stundir. Var samningurinn alls staðar samþykktur nema á Seltjarnarnesi þar sem sveitarstjórn felldi samninginn vegna styttingarákvæðisins. Í Garðabæ vildu sveitarstjórnarmenn greiða fyrir samningamálum og buðu ríflegt framlag í orlofssjóð í stað styttingar. Gengið var að þessari sárabót og samið í Garðabæ. Nokkrum mánuðum síðar var reyndar lögleidd fjörutíu stunda vinnuvika í landinu.

Félagið eignaðist fyrsta orlofshúsið í Stóru Skógum 1983. Var það hús í eigu félagsins í um fimmtán ár. Félagið á núna fimm orlofsbústaði á Íslandi, tvo í Reykjaskógi, tvo í Stykkishólmi og einn við Kjarnaskóg á Akureyri. Nýjasta húsið var tekið í notkun sumarið 2015, það er í Stykkishólmi. Bústaður sem félagið átti um skeið, að Úlfsstöðum við Egilsstaði, var seldur árið 2011.

Snemma kom upp umræða um að kaupa orlofshús á Spáni og eignast félagið sitt fyrsta hús þar 1986. Það hús var síðar selt svo og hús númer tvö. Það þriðja í röðinni var í notkun sumarið 2003 og síðan var bætt við húsi árið 2007. Eldra húsið var selt 2013 og nú er félagið með eitt hús á Spáni. 

Í byrjun fékk félagið inni með starfsemi sína á bæjarskrifstofu í Sveinatungu og í Flataskóla. Síðar var starfsemin í gamla pósthúsinu að Goðatúni 2 þar til það húsnæði var rifið. Því næst leigði félagið skrifstofuaðstöðu í Lyngási. Tíðir fundir voru þó við eldhúsborðið hjá formönnum heima fyrir. Þótti stjórn, sem tók við árið 2001, rekstur skrifstofu nokkuð kostnaðarsamur fyrir ekki stærra félag. Lengi vel ríkti gott samkomulag við vinnuveitanda um að nýta húsnæði bæjarskrifstofu við Garðatorg og aðra aðstöðu sem bæjarfélagið hefur upp á að bjóða fyrir stærri fundi. Lögheimili Starfsmannafélagsins er því við Garðatorg 7 og lætur stjórn vel að sambýlinu við vinnuveitandann. Skrifstofa var opnuð aftur árið 2011 enda fór félagið stækkandi og nú, sem endranær, með góðum stuðningi vinnuveitenda. Skrifstofan er staðsett í Kirkjuhvoli, á neðri hæð Vídalínskirkju.

Formenn félagsins frá upphafi:

Jón M. Björgvinsson 1976-1983
Páll Ingimarson 1983-1988
Gísli Valdimarson 1988-2001
Gunnar Hrafn Richardson 2001 - 2007
Gunnar Örn Erlingsson 2007- 2008
Vala Dröfn Hauksdóttir 2008 - 2014
Kristján Hilmarsson 2014 - 2022

Gunnar Hrafn tók aftur við formennsku á aðalfundi 2022.

 Að mati stjórnarinnar eru helstu baráttumál starfsmannafélaga jafnrétti kynja til launa og réttlátt mat starfa. Auk þess er það réttindamál að fá fram viðbótarlífeyrisframlag til handa bæjarstarfsmönnum. Auka má virðingu almennings fyrir mikilvægi starfa í almannaþjónustu, sem segja má að gangi lengra í lagalegum skyldum en gildir um störf á almennum vinnumarkaði. Starfsmannafélag Garðabæjar hefur hingað til haft ríkan skilning bæjaryfirvalda fyrir tilvist sinni og tilgangi. Seint verður ofmetin gagnsemi félagsins til að byggja upp liðsheild starfmanna og stuðla að fyrirtækjamenningu. Haft er að leiðarljósi að halda kostnaði við rekstur félagsins í lágmarki. Hefur stjórnin því kosið að sækja sérfræðiaðstoð, ef á þarf að halda, til BSRB og/eða kaupa út einstaka verkþætti í starfinu þegar svo ber undir.